Þá er ég komin aftur heim eftir viku útlegð. Það var samt bara eins og ég hefði verið í tvo daga í burtu, tíminn leið svo hratt.
Þessi ferð varð meira ævintýri heldur en sú fyrri. Fyrsta daginn þá keyrðum við í einhverja 4 tíma norður og enduðum í Kirimon, það var markaðsdagur svo þar var fullt af fólki. Ég ákvað að nú mundi ég sko vera rosalega hjálpleg (sem ég var). Pauline sýndi mér hvernig ætti að sprauta í vöðva og því tók ég yfir verkefni sem kallast family planing, en það er að gefa út getnaðarvarnir. Það er mjög mikið um að konurnar vilja bara fá þriggja mánaða sprautu og því var nauðsynlegt fyrir mig að læra þetta. Það var samt eitt atvik sem gerði mig vikilega reiða. Það kom maður(um 60 ára) með konu sína (18 ára) til okkar. Hann hafði barið hana og hún var komin 7 mánuði á leið, hún var komin með einhverja verki og farið að blæða. Bara til að sjokkera ykkur enn meira þá á þessi maður 13 aðrara konur, takk fyrir. Á meðan Paulie var að skoða hana og tala við hana, þá sat helv... kallinn brosandi undir tré. Mér var skapi næst að standa upp og lemja helvítið. John tók hann afsíðis stuttu seinna og greinilega las honum pistilinn, því honum stökk ekki bros það sem eftir var af hans heimsókn þarna. Undir lokin á þessum degi komu um 15 stríðsmenn og vildu láta ath. hvort þeir hefðu HIV, en það er gert frítt á heilsugæslunni. Þeir reyndust allir vera neikvæðir eða lausir við HIV. Því var ákveðið að kenna þeim að nota smokkinn. Það er bara snilld hvernig það er gert og eiginlega ekki hægt að lýsa í orðum, en það var mjög mikið hlegið og tók ég helling að myndum sem að verða sýndar þegar ég kem heim. Þegar allir voru búnir að fá þá þjónustu sem að þeir þurftu og við búin að pakka öllu aftur í bílinn, var farið að leita að stað til að borða á. Enda var klukkan langt gengin í 7 og við orðin mjög svo svöng, það gefst nefninlega ekki mikill tími til að borða meðan stöðin er opin. Við fundum stað sem að bauð upp á „Roasted meet“, en það er eiginlega bara soðið kjöt. Það var borðað með guðsgöflunum, þar sem lítið er um hnífapör. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta svolítið bragðlaust, það er nefninlega ekki boðið upp á neitt grænmeti með, heldur bara hveiti köku, sem er gjörsamlega bragðlaus.
Þegar við komum svo út, tókum við eftir því að það var punkterað á bílnum. John dreif því í því að skipta um dekk. Í Kirimon er það skrýtnasta fólk sem ég hef hitt hérna, það er mjög mikið um drykkjuskap og alskonar vímuefni eru mjög algeng. Þegar fólk frétti að það væri mzungu í bænum, flyktist fólk út á götu og fyllibytturnar og dópistarnir voru sko ekkert að liggja á skoðunum sínum. Mér var því nánast hennt inn í bíl og læst þar inni þar til við vorum komin úr hæfilegri fjarðlægð frá bænum. Ég skil því miður ekki mikið í svahíli enn, svo ég veit ekki hvað fólkið var að segja, en starfsfólkið sem ég var með var mjög miður sín og vildi ekki segja mér hvað hafði verið sagt. Á leiðinni til baka punkteraði aftur, það var komið niðamyrkur og við ekki alveg viss hvar við vorum. Það var nú svolítið spennandi að vera í miðjum burskanistan í kolniðarmyrkri og heyra í ljónum og fílum allt í kringum mann. Það létu engin dýr sjá sig meðan skipt var um dekk.
Fyrstu tvær næturnar sváfum við í pínulitlum kofa á landareig bróðir Shanni. Það eru tvö herbergi með fjórum rúmum, þrjú voru í stærra herberginu (það er gengið beint inn í það) og eitt í pínulítilli kitru inn af stóra herberginu. Þegar gengið var í gegnum stóra herbergið var komið inn í eldhús og bak við þylið við vaskann var svo sturta. Til að geta farið í heita sturtu þurfti að kynda eldavélina og það var sko gert um leið og við komum inn fyrir dyrnar, en klósettið var útikamar um 10m frá kofanum.
Svo leið bara hver dagurinn fyrir sig. Brjálað að gera á hverri stöð og ég veit ekki hvað við fengum marga sjúklinga, má alveg giska á um 100 á hverri stöð, það kom mér á óvart hvað ég gat gert mikið. Það er mikið um að konur koma með ungabörnin sín í bólusetningar og byrjaði ég því á að vigta þau áður en þau voru bólsett.
Eftir tvær nætur í kofanum var farið til Rumuruti og gist í tjöldum hjá gamla sjúkrahúsinu. Sem betur fer var þetta gamallt sjúkrahús, því sjúkrahúsið var ekki mikið stærra en kofinn sem við höfðum gist í næturnar áður. Við vorum gjörsamlega uppgefin þegar við vorum loksins búin að tjalda, því var bara skriðið beint ofan í svefnpokann og farið að sofa, ég hefði betur sleppt því. Ég gleymdi nefninlega að tékka með moskítóflugur í tjaldinu áður en ég fór að sofa og í þokkabót gleymdi ég að bera á mig mossifælu. Þegar ég vaknaði næsta dag þá töldum við bara um 15 bit, og 5 á hægra eyranum og 2 á hægri augabrún. Svo skiljum við ekki alveg hvernig stendur á því að ég sé marin í kringum bitin á fótunum á mér. Ég get sko sagt ykkur það að ég mun aldrei aftur gleyma að athuga með mossý áður en ég fer að sofa í tjaldi aftur. Þetta er nú ekki draumastaðurinn til að gista á, get ég sagt ykkur. Það var samt eldhús þarna, baðherbergi og útikamar, en ekkert vatn. Því var sent eftir vatni, og það kom bara úr næstu á, ekki það sem maður vill baða sig upp úr.
Það gerðist svo sem ekkert merkilegt fyrr en á laugardaginn, þá erum við stödd í Sukuroi og sitjum undir tré, því það var verið að laga skólann áður þeir byrja. Allt í einu kemur kall til okkar úr talstöðinni og við beðinað fara til Ewaso. Það reyndist ekki vera hægt, þar sem það er um 7 tíma keyrsla. Það hafði fíll ráðist á mann og hent honum í ána. Þegar kallið kom var ekkert vitað um það hvort maðurinn væri lífs eða liðinn, stuttu seinna kom svo aftur kall um að maðurinn hafði fundist látinn. Mér hefði fundist mjög skrítið að hann hefði lifað af, því við fengum svo fréttir af því að fíllinn hefði stigið ofan á hann áður en hann henti honum í ána. Strax eftir að þetta gerðist var haft samband við African wild life insitution og þeir látnir vita af þessu, því að það verður að drepa fílinn. Þeir eru nefninlega eins og hundarnir, ef þeir drepa einn munu þeir drepa fleiri. Ég hef samt ekki hugmynd um það hvernig þeir vita hvaða fíll þetta var, því ekki munu þeir spyrja fílana að þessu, en þetta er þeirra mál að leysa úr.
Í Sukuroi var ég líka að hin besta skemmtun fyrir starfsfólkið og sjúklingana, þar sem ég við sátum undir tré (já Eygló hlægðu bara). Þá náttúrlega koma greinar stundum niður líka. Það vildi líka svo skemmtilega til að ég sat bara eiginlega undir einni svoleiðis grein, og í allmörg skipti sem ég stóð upp rak ég höfuðið upp í greinina, enda er ég komin með þessa líka fínu kúlu á höfðið.
Á síðasta staðnum sem við heimsóttum þá varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Það var svo sem alveg nóg að gera. Til okkar kemur ung stúlka sem hafði dottið þegar hún var að fara yfir á og fengið prik í fótinn sem gerði all ljótt sár, hún hafði farið á næstu heilsugæslu og þar fékk hún tvær sprautur. Greyið varla gat stigið í fótinn fyrir kvölum og ég get næstum fullyrt að fílsfótur sé álíka sver og fóturinn á henni var. Hún hafði gengið í einhverja 3 tíma til að komast til okkar og þegar hún var búin að fá sína meðferð þurfti hún að fara aftur. Það var fullt af flólki á stöðinni (bara til að vera þarna) og mikið af ungum mönnum sem voru á hjólum. Pauline stoppaði mig af þegar ég ætlaði að fara til þeirra og biðja þá um að sýna mér hversu miklir herramenn þær gætu verið og bjóða henni far heim, því hún hoppaði eiginlega bara. Svona er þetta víst hérna, enginn er tilbúinn að hjálpa náunganum nema hann fái borgað fyrir það.
Núna er frí þar til 4. Sept, en ég fæ sennilega ekki að fara með í þá ferð, það eru að koma gestir frá Ameríku sem hafa mikinn áhuga á að sponsera þessa heilsugæslu og bað Shanni mig að fara með þá á eina stöðina og sína þeim hvað er gert og úrskýra fyrir þeim hvernig starfið og lífið er á þessum stöðum.
Svona áður en ég hætti þá langar mig að óska henni Dagbjörtu Pálsdóttur innilega til hamingju með daginn, en hún á víst afmæli í dag. Það er ekki auðvelt að vera svona langt í burtu þegar einhver manni kærkomin á afmæli, en ég vona svo innilega að hún eigi góðan dag.
Bið að heilsa ykkur öllum.
Sædís