Já alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Þessi skemmtilega setning þýðir einfaldlega; mig langar í samloku.
Ég ætlaði að vera löngu búin að skrifa heima, en það er alltaf eitthvað sem kemur uppá. Þar sem ég get ekki skrifað á íslensku í tölvunum í bænum, þá er hef ég ætlað mér að vera rosalega sniðug og vera búin að undirbúa það sem ég ætla að senda heim áður en ég fer. En þá lesa tölvurnar ekki usb lykilinn því hefur farið svona. Í gær var ég reyndar í Nanyuki og ætlaði að senda heim nokkrar myndir en þá þurfti rafmagnið endilega að fara af og kom ekki aftur á fyrr en rétt um 7 leytið og þá var ég að fara heim.
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki átt auðvelda fyrstu vikuna, mér hefur leiðst alveg hrikalega, þar sem ég hef ekkert annað haft að gera en að horfa á einhverjar tölur á blaði og pikka þær inn í tölvu. Hef því oft verið að pæla að hringja í flugfélagið og bóka næsta flug heim aftur.
Það hafa sem betur fer ekki allir dagarnir verið svona hrikalegir. Mig minnir að á fimmtudaginn þá fór ég með John (pabbanum á bænum) í Mpala range, það var verið að skipta um vinnufólk og því var farið í þessa ferð. Þetta var alveg heljarinnar ævintýri. Ég sá alveg helling af afrískum dýrum. Það kom mér eiginlega á óvart hvað það var erfitt að koma auga á þau, því ekki eru þessi dýr beint lítil. Einu dýrin sem auðvelt var að sjá voru gíraffarnir, því hausinn á þeim stóð yfirleitt langt fyrir ofan tréin.
Einhvernveginn hef ég alltaf haldið að fílar væru þessar rólegustu skeppnur, en það er sko langt í frá. Á leiðinni heim þá er ég náttúrulega að smella af nokkrum myndum af þessum dýrum, og hvað haldiði? Það stendur þessi líka svakalega stóri (að mér fannst) fíll á miðjum veginum. Nú auðvitað tók ég myndir af honum, en þessi fíll var sko ekki til í að vera einhver ljósmyndafyrirsæta og gerði sig líklegan til að ráðast á okkur. Sem betur fer hefur John lent í þessu áður og sýndi þessum fíl hver ræður hér. Við komumst s.s. klakk laust undan þessari svaðilför.
Á laugardaginn fór ég svo í minn fyrsta leiðangur með heilsugæslunni. Það var reyndar ekki langt, en loksins hafði ég eitthvað að gera. Það eina sem ég gerði reyndar var að mæla blóðþrýsting og telja pillur ofan í poka. En það er samt ekki oft sem að maður situr undir tré með fullt af beljum í kringum sig og telur sig vera á heilsugæslu. Loksins er ég svo farin að sjá fram á að gera eitthvað að viti, því að á fimmtudaginn fer ég svo í 3 daga ferð og kem heim í 2 daga og fer í 5 daga. Mig hlakkar rosalega mikið til, því hér leiðist mér alveg hrikalega mikið.
Ég tók að mér eðlu stuttu eftir að ég kom hingað. Reyndar gerði hún sig bara sjálf heimakomna hérna og hefur átt sér fastan stað fyrir ofan klósetthurðina. Ég er búin að kenna henni einn mannasið og það er að hoppa ekki ofan á höfuðið á mér þegar ég þarf að fara inn á klósett. Hún hefur hlýtt því alveg út í eitt. Næst er að kenna henni að tala, en það er eitthvað erfiðara, ég er farin að halda að hún sé heyrnalaus.
Ætli ég hafi þetta nokkuð lengra í bili.
Bið að heilsa öllum þarna heima og takk kærlega fyrir allar kveðjurnar sem þið hafið sent, þær eru mér mikil virði.
Sædís